Körfubolti

Fimmta þrenna Westbrooks í röð | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Westbrook ræðst á körfu New Orleans.
Westbrook ræðst á körfu New Orleans. vísir/afp
Fjórir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Russell Westbrook var með þrefalda tvennu fimmta leikinn í röð þegar Oklahoma City Thunder bar sigurorð af New Orleans Pelicans á heimavelli, 101-92.

Westbrook skoraði 28 stig, tók 17 fráköst og gaf 12 stoðsendingar í liði Oklahoma sem er í 5. sæti Vesturdeildarinnar. Þetta var fimmti sigur liðsins í röð.

Anthony Davis var að vanda yfirburðarmaður í liði New Orleans en hann skoraði 37 stig, tók 15 fráköst og varði fjögur skot. Davis er stigahæstur í deildinni með 31,5 stig að meðaltali í leik.

Eftir frábæra byrjun hefur fjarað undan Los Angeles Clippers að undanförnu. Í nótt laut liðið í lægra haldi fyrir Indiana Pacers á heimavelli, 102-111.

Sjö leikmenn Indiana skoruðu 12 stig eða meira í leiknum. Thaddeus Young var þeirra stigahæstur með 17 stig. Indiana er í 9. sæti Austurdeildarinnar.

Þrátt fyrir tapið átti Blake Griffin flottan leik í liði Clippers; skoraði 24 stig, tók 16 fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Þrjátíuogsex stig DeMarcus Cousins dugðu Sacramento Kings ekki til sigurs gegn New York Knicks á útivelli. Lokatölur 106-98. Þetta var þriðji sigur Knicks í röð.

Carmelo Anthony og Derrick Rose skoruðu báðir 20 stig fyrir Knicks og Brandon Jennings skilaði 19 stigum af bekknum.

Þá vann Orlando Magic góðan sigur á Detroit Pistons, 92-98.

Liðsheildin var sterk hjá Orlando sem fékk alls 45 stig af bekknum í leiknum. Serge Ibaka var stigahæstur í liði Orlando með 21 stig.

Marcus Morris skoraði 21 stig fyrir Detroit sem tapaði aðeins sínum þriðja heimaleik í nótt.

Úrslitin í nótt:

Oklahoma 101-92 New Orleans

LA Clippers 102-111 Indiana

NY Knicks 106-98 Sacramento

Detroit 92-98 Orlando

Westbrook var magnaður DeAndre Jordan með rosalegt varið skot Flottustu tilþrif næturinnar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×