Hér er æfing í gangi á leikritinu Jólaflækju. Rennslinu er að ljúka á Litla sviðinu og eftir það tyllum við Bergur okkur niður við borð í anddyri Borgarleikhússins þar sem hann lýsir því hvernig þessi sýning kom til og hvað hann sé að bralla þar.
„Mig langar alltaf að leika mér. Grufla aðeins í sköpunarmættinum og gera eitthvað nýtt,“ segir Bergur Þór grallaralegur. Nú kveðst hann hafa fengið tækifæri til að búa til sýningu á þann hátt sem hann hafi alltaf langað til.
„Æfingatímabilið er spuni, bara eins og að vera ellefu ára að leika sér með dót og athuga möguleikana. Ég er með ákveðinn einstakling, hann Einar sem er alltaf einn, borðar einn og býr einn en finnur alltaf upp á einhverju til að gera einveruna áhugaverða. Hann er hins vegar mikill klaufabárður og ég lýsi því hvernig hann tekst á við það að lokast uppi á háalofti á aðfangadagskvöld og halda jólin þar. Það er í senn raunalegt og spaugilegt.“
Leikritið Jólaflækja sprettur meðal annars frá minningum Bergs frá því hann var lítill. „Þá var ekki margt í sjónvarpinu, að minnsta kosti ekki mikið barnaefni,“ rifjar hann upp. „Reyndar voru Tommi og Jenni í fimm mínútur fyrir fréttir á mánudögum. Ég horfði alltaf á þá og líka Harold Lloyd sem var á föstudögum ef ég man rétt. Ég sæki svolítið í þetta – í einfaldleikann.“

Jólaflækja verður frumsýnd á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu á morgun klukkan 13.
Sýningin er innan við klukkutími að lengd og er látbragðsleikur. Hún er þó ekki hljóðlaus því Garðar Borgþórsson gerði tónlist við sýninguna og Bergur „fékk að búa til smá“ að eigin sögn. Hann tekur fram að Móeiður Helgadóttir sé höfundur leikmyndar og búninga.
Bergur hefur á síðustu árum sett upp vinsælar og fjölmennar barna- og fjölskyldusýningar. Má þar nefna Mary Poppins og Billy Elliot.
„Þetta voru stórar og flóknar sýningar með yfir hundrað manna ímeil-lista,“ segir Bergur Þór. „Það er góð tilbreyting að vera bara með þrjá á póstlistanum núna og þurfa ekki að snúa öllu leikhúsinu við. Bara að dunda sér, eins og þegar ég var ellefu ára inni í herbergi með Aksjón-karlinn minn, en fá samt að búa til sögu og sýningu og nýta allt sem ég hef lært frá því ég var ellefu ára.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. nóvember 2016.