Menning

Þór­dís Dröfn hlaut Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þórdís Dröfn með Heiðu Björgu borgarstjóra við verðlaunaathöfnina við Höfða.
Þórdís Dröfn með Heiðu Björgu borgarstjóra við verðlaunaathöfnina við Höfða. Róbert Reynisson

Þórdís Dröfn Andrésdóttir hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2025 fyrir ljóðahandritið Síðasta sumar lífsins. Upphæð verðlaunafjár nemur einni milljón króna og kemur bókin út hjá bókaútgáfunni Benedikt.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri athenti Þórdísi Dröfn verðlaunin í dag við hátíðlega athöfn í Höfða.

Aldrei hafa borist fleiri handrit en í ár en alls bárust 103 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina. Ástæðan skýrist að einhverju leyti að því að í fyrsta sinn var fyrirkomulag innsendinga þannig að handrit voru send inn rafrænt á vef Reykjavíkurborgar og nafn höfundar dulkóðað. 

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum sem hafa verið veitt frá árinu 1994 en frá 2004 hafa verðlaunin eingöngu verið veittfyrir ljóðahandrit. Í dómnefnd í ár sátu Þorvaldur Sigurbjörn Helgason formaður, Soffía Bjarnadóttir og Brynhildur Björnsdóttir.

Óútskýrð hætta við sjóndeildarhringinn

Þórdís Dröfn Andrésdóttir er fædd árið 1997, lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands og MA-prófi í málvísindum frá Háskólanum í Árósum.

Þórdís Dröfn starfar hjá íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.Róbert Reynisson

Þórdís Dröfn starfar nú sem aðjúnkt við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, en hún gegndi áður stöðu forseta Sambands íslenskra námsmanna erlendis.

Síðasta sumar lífsins er fyrsta ljóðabók Þórdísar. Henni er lýst sem ljóðsögu sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. 

„Handritið er ljúfsár og tregafull lýsing á endalokum í víðum skilningi; endalokum tímans, ástarinnar, lífsins og sumarsins sem hverfur frá birtu yfir í óvissu myrkurs. Hvorki elskendurnir tveir né eyjan sem þeir dvelja á eru nokkru sinni nefnd á nafn svo reynsluheimurinn sem ljóðin lýsa verður almennur á meðan ljóðmyndirnar eru bæði sértækar og óvenjulegar,“ segir í umsögn dómnefndar.

Umfjöllunarefni ljóðanna í Síðasta sumar lífsins eru þau sömu og skáld hafa fengist við frá örófi alda; ástin, dauðinn, náttúran, svo eitthvað sé nefnt, en höfundur tekst á við þessi þemu af tilfinningalegri dýpt, næmni og frumleika. 

Frásögn verksins sé kyrrlát en í gegnum ljóðin liggi undiralda sorgar. 

„Við sjóndeildarhringinn vofir óútskýrð hætta sem ógnar hinu eilífa sumri eyjunnar. Verkið verði þannig að myndlíkingu fyrir líf nútímamannsins á Vesturlöndum, líf sem þrátt fyrir að hafa aldrei verið þægilegra og friðsælla er á sama tíma markerað af djúpstæðum ótta og óveðursskýjum sem hrannast upp á himni,“ segir jafnframt í umsögn dómnefndar.

Verðlaunahafi, borgarstjóri og dómnefnd.Róbert Reynisson

Tengdar fréttir

Birna verðlaunuð fyrir Örverpi

Birna Stefáns­dóttir hlaut í dag Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar við há­tíð­lega at­höfn í Höfða. Borgar­stjóri veitti Birnu verð­launin.

Jón Hjartar­son hlaut Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, afhenti í dag Jóni Hjartarsyni, leikara og skáldi, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í við hátíðlega athöfn í Höfða í Reykjavík. Jón hlaut verðlaunin fyrir handrit sitt að ljóðabókinni Troðningar, en bókin kom út í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.