Körfubolti

Dramatík í Oklahoma | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blake Griffin skoraði 25 stig í sigrinum á Oklahoma.
Blake Griffin skoraði 25 stig í sigrinum á Oklahoma. vísir/afp
Átta leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Los Angeles Clippers hefur aldrei farið jafn vel af stað og þessu tímabili og í nótt vann liðið Oklahoma City Thunder, 108-110, á útivelli.

Russell Westbrook var í miklum ham í liði Oklahoma; skoraði 29 stig, tók 14 fráköst og gaf níu stoðsendingar, en hann klikkaði á lokaskotinu þegar tvær sekúndur voru eftir.

Blake Griffin var stigahæstur í liði Clippers með 25 stig. Jamal Crawford skilaði 19 stigum af bekknum og Chris Paul skoraði 17 stig og gaf tíu stoðsendingar.

LeBron James skoraði 27 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar þegar Cleveland Cavaliers vann 11 stiga sigur, 94-105, á Washington Wizards á útivelli.

Cleveland er með bestan árangur allra liða í Austurdeildinni en meistararnir hafa unnið sjö af fyrstu átta leikjum sínum.

Kyrie Irving var einnig öflugur í liði Cleveland í höfuðborginni í nótt og skoraði 29 stig. Þá gerði Kevin Love 14 stig og tók 16 fráköst.

Boston Celtics átti ekki í miklum vandræðum með að leggja New York Knicks að velli, 115-87, í TD Garden í Boston.

Isiah Thomas fór fyrir Boston-mönnum með 29 stig en sjö leikmenn liðsins skoruðu tíu stig eða meira í leiknum í nótt.

Kristpas Porzingis var stigahæstur í slöku liði Knicks með 14 stig.

Úrslitin í nótt:

Oklahoma 108-110 LA Clippers

Washington 94-105 Cleveland

Boston 115-87 NY Knicks

Philadelphia 109-105 Indiana

Charlotte 111-113 Toronto

Orlando 74-87 Utah

San Antonio 96-86 Detroit

Portland 122-120 Sacramento

LeBron James og Kyrie Irving skoruðu samtals 56 stig fyrir Cleveland Damian Lillard fór mikinn í sigri Portland Flottustu tilþrif næturinnar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×