Ríkisstjórn Tyrklands vill leggja niður embætti forsætisráðherra og gera forsetaembættið mun valdameira. Reiknað er með því að tillagan verði borin undir þjóðina á næsta ári. Gagnrýnendur Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, óttast að með þessum breytingum gæti hann orðið svo gott sem einráður í landinu.
Erdogan var kjörinn forseti árið 2014, eftir að hafa verið forsætisráðherra í rúman áratug. Hann vill byggja upp embætti forsetans í Tyrklandi eins og það er í Bandaríkjunum og í Frakklandi.
Áður en Erdogan varð forseti var forsætisráðherra valdamesti embættissmaður ríkisins. Binali Yldirim, núverandi forsætisráðherra, er hins vegar undirmaður Erdogan.
Forsetinn hefur mætt mikilli gagnrýni að undanförnu vegna fjölda handtaka og uppsagna í Tyrklandi eftir misheppnað valdarán fyrr á árinu.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni er því haldið fram af fjölmiðlum í Tyrklandi, að nái breytingarnar í gegn, gæti Erdogan setið sem forseti til ársins 2029.
Vill leggja embætti forsætisráðherra niður
Samúel Karl Ólason skrifar
