Skoðun

Hvar eru Skútustaðagígar?

Kári Jónasson skrifar
Já, hvar eru Skútustaðagígar spurði japanski svokallaði „leiðsögumaðurinn“ í anddyrinu á Sel hóteli við Mývatn á dögunum þegar ég var þar. Hann var þá nýbúinn að lóðsa hóp samlanda sinna, um 30 manns, inn í veitingasalinn að hádegishlaðborðinu. Hann var nú svolítið flóttalegur verð ég að segja þegar hann var þarna að spyrja til vegar, en fyrir þá sem ekki vita, þá eru Skútustaðagígar handan vegarins við hótelið. Svo spurði hann um hitt og þetta í Mývatnssveit, og ég heyrði ekki betur en hann ætlaði að ganga yfir í Dimmuborgir og þaðan upp í Námaskarð og að Hverarönd.

Algjörlega skipulagslaust

Þetta er svolítið lýsandi dæmi um hvernig ferðamennskan gengur fyrir sig á okkar ástkæra ylhýra landi í dag. Hingað velta inn hundruð þúsunda ferðamanna í hópum og fara um landið algjörlega skipulagslaust. Það getur hver sem er komið hingað með hóp og þóst vera leiðsögumaður, og enginn segir eitt eða neitt.

Það getur verið mjög fróðlegt að heyra frásagnir rútubílstjóra sem fara með erlenda ferðamenn um landið án íslenskra leiðsögumanna. Þá eru gjarnan svokallaðir leiðsögumenn með, sem hafa kannski farið á hraðnámskeið erlendis um það hvað sé að sjá á hringferð um landið.

Oft vitni að misjöfnu

Rútubílstjórarnir eru þá oft vitni að ýmsu misjöfnu hjá þessum svokölluðu leiðsögumönnum og segja frá því að þeir taki t.d. feil á Skeiðarárjökli og Breiðamerkurjökli, en svo fer nú að kárna gamanið þegar ferðalöngum er tjáð þegar komið er inn fyrir Tíðaskarð í Kjós að þar blasi við Snæfellsjökull, eða að Líffræðihús Háskóla Íslands sé sagt Norræna húsið.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður og nokkrir samþingsmenn hans hafa gert veikburða tilraun til að koma skikki á þessi mál, en enn sem komið er hefur ekkert raunhæft gerst.

Vilja menn þetta ástand áfram. Ég segi Nei með stórum staf.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×