Evra og Suárez elduðu grátt silfur þegar þeir léku með Manchester United og Liverpool. Fyrir fimm árum varð Suárez uppvís að því að hafa beitt Evra kynþáttaníði. Úrúgvæinn fékk átta leikja bann og 40.000 punda sekt fyrir.
Suárez var langt frá því að vera sáttur með þá niðurstöðu og neitaði að taka í höndina á Evra fyrir leik Man Utd og Liverpool í febrúar 2012.
En núna virðist þíða vera komin í samskipti þeirra, allavega ef marka má mynd sem Evra birti á Instagram af Suárez með gullskóinn sem hann fékk fyrir að skora 40 mörk í 35 deildarleikjum með Barcelona í fyrra.
„Á minni Instagram-síðu er ekkert hatur, bara ást,“ skrifaði Evra við myndina af sínum forna fjanda.
„Luis, þú ert frábær leikmaður og besta nían,“ bætti Frakkinn við og óskaði Suárez til hamingju með verðlaunin.
Evra og Suárez yfirgáfu báðir ensku úrvalsdeildina 2014. Evra gekk til liðs við Juventus á meðan Suárez fór til Barcelona. Þeir mættust m.a. í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2015 þar sem Barcelona hafði betur gegn Juventus, 3-1.