Karlmaðurinn sem lést er hann varð fyrir bifreið á Suðurlandsvegi á Suðurlandsvegi á Sólheimasandi skammt vestan við Pétursey í gærkvöldi ætlaði sér að skoða gamalt flugvélarflak á Sólheimasandi. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.
Flugvélarflakið er óvænt orðið eitt af vinsælli ferðamannastöðum Suðurlands en íbúar á svæðinu hafa bent á slysahættuna sem skapast getur þegar bílum er lagt meðfram vegkantinum af ferðamönnum sem vilja skoða flugvélarflakið.
Sá látni, erlendur ferðamaður, var í tíu manna hóp á tveimur bifreiðum. Bifreiðarnar voru stöðvaðar í vegkantinum og fólkið fór út úr þeim. Varð maðurinn fyrir bifreið sem ekið var vestur Suðurlandsveg.
Greint hefur verið frá vinsældum flugvélarflaksins, flak Varnarliðsflugvélar sem nauðlenti í fjörunni árið 1974 þegar hún var í birgðaflutningum milli Keflavíkur og Hornafjarðar. Bændurnir voru búnir að fá nóg af stjórnlausum utanvegaakstri um sandinn og lokuðu því veginum að flakinu í vor.
Einar Freyr Elínarson, bóndi á Loðmundarstöðum í Sólheimahjáleigu í Mýrdal, benti í sumar á hættuna sem skapast getur þegar bílum er lagt við vegkantinn af þeim sem vilja skoða flakið og hvatti hann bæði Vegagerðina og lögregluna til að taka málið í sínar hendur.
Ekki liggur fyrir með hvaða hætti slysið bar að en lögreglan á Suðurlandi rannsakar slysið og aðdraganda þess. Fulltrúi rannsóknarnefndar samgönguslysa kom á staðinn. Þjóðveginum var lokað í um þrjár klukkustundir á meðan vettvangsrannsókn fór fram.
