Fyrsta stuttmynd Sevigny, Kitty, verður sýnd á hátíðinni en myndin var lokamynd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í ár. Hún öðlaðist töluverða frægð ung að árum og var meðal annars nefnd ein svalasta stelpa í heimi í sjö blaðsíðna grein sem skrifuð var um hana í tímaritið The New Yorker. Hún fór meðal annars með hlutverk í kvikmyndunum Kids og Boys Don't Cry. Að auki er hún margrómuð fyrir stíl sinn og hefur tekið virkan þátt í og átt frumkvæði að umræðunni um femínisma í kvikmyndagerð og stöðluð kynjahlutverk í Hollywood.
Einnig verða leikstjórarnir Darren Aronovsky og Deepa Mehta heiðursgestir á hátíðinni en Aronovsky leikstýrði hinni margverðlaunuðu kvikmynd Black Swan og Mehta er einna þekktust fyrir þríleikinn Fire, Earth og Water.
Kitty keppir til verðlauna á hátíðinni í flokki erlendra stuttmynda en þetta er í fyrsta sinn sem verðlaun eru veitt í flokknum. Sevigny verður viðstödd sýninguna og svarar spurningum gesta að sýningu lokinni.
RIFF verður sett í þrettánda sinn þann 29. september næstkomandi. Hér fyrir neðan má sjá nýlegt viðtal við Sevigny um Kitty.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. september.