Spurður hvort hann hafi tíma til að gera nokkuð annað segist Chris ekki hafa tíma til þess að fylgja öðrum á tónleikaferðalögum, þó hann sé í hönnunarteymi hjá öðrum listamönnum. Hann segir það þó vera einstakt að vinna með Justin Bieber, þar sem hann sé ótrúlega orkumikill og frábær listamaður
„Justin er frábær strákur, hann er orkumikill og hugsar vel um sig, enda elskar hann að hreyfa sig. Á milli þess sem hann kemur fram gengur hann á fjöll og rennir sér á hjólabretti, svo elskar hann að veiða. Hann er frábær söngvari og magnaður listamaður sem gefur ekkert eftir á tónleikum,“ segir Chris og bætir við að þó að Justin sé aðeins 22 ára, hafi hann verið í bransanum frá því hann var fjórtán, sem gerir hann að reynslubolta í faginu.

Evróputúrinn hefst hér á landi á morgun. Alls eru um 19.000 miðar í boði á hvora tónleika sem gerir þetta að langstærsta tónlistarviðburði á Íslandi fyrr og síðar. Justin mun í framhaldinu halda áfram til Þýskalands, en hver ætli sé ástæða þess að þeir hefja túrinn hér á Klakanum?
„Ástæðan fyrir því að við völdum Ísland er sú að Justin sjálfur bað um þessa tónleika. Hann kom hingað í fyrra þar sem hann tók upp myndband við lagið I’ll Show You og heillaðist af landinu. Þegar við settum saman túrinn var hann virkilega ánægður, hann benti hins vegar á að hann væri búinn að biðja um tónleika á Íslandi. Svo við settumst aftur yfir skipulagið og ég lét hann vita að það væri mögulegt að hefja túrinn hér á Íslandi, hann var hæstánægður með það. Hann elskar Ísland og það er eina landið sem hann valdi, og ástæðan er einföld: hann vildi spila hér,“ segir Chris.

Áhrifamikið fólk í bransanum er með honum hér og ber þar helst að nefna allt lykilfólkið úr umboðsmannateymi hans sem og háttsetta aðila frá AEG, einu stærsta tónleikafyrirtæki í heimi.
„Það eru fjörutíu manns úr teyminu hans sem koma til landsins. Auk þess erum við í frábæru samstarfi við teymið hér, sem kemur til með að stjórna tónleikunum með okkur. Fólkið í teyminu hér vinnur virkilega vel og það er frábært að vinna með því,“ segir Chris en gert er ráð fyrir að straumstyrkurinn á tónleikunum verði um tvö þúsund amper.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.