Eygló Ósk synti á 2:09.62 mínútum en Íslandsmet hennar frá því á HM í Kazan fyrir ári síðan er 2:09,04 mínútur. Eygló Ósk var því ekki langt frá sínu besta.
Anton Brink, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á sundinu í dag og náði þessum flottum myndum af Eygló Ósk hér fyrir ofan.
Eygló Ósk keppti í síðasta riðlinum og varð fjórða. Eygló Ósk var í forystu fyrstu 150 metrana í sínum riðli en missti síðan þrjár fram úr sér á síðustu 50 metrunum.
Þetta er önnur greinin á leikunum þar sem Eygló Ósk kemst í undanúrslit og jafnar hún þar með afrek Hrafnhildar Lúthersdóttur frá því í gær. Þær hafa báðar komist tvisvar í undanúrslit á þessum leikum sem er sögulegur árangur.
Fyrir þessa Ólympíuleika hafði engin íslensk sundkona komist í undanúrslit í sögu Ólympíuleikanna.
Eygló Ósk varð í fjórtánda sæti í 100 metra baksundi en fyrstu tvö sundin hennar voru á sunnudaginn var.
Katinka Hosszú frá Ungverjalandi hefur þegar unnið þrjú gull á leikunum og hún náði bestum tíma í undanrásum 200 metra baksundsins.
Eygló Ósk Gústafsdóttir syndir aftur í undanúrslitum í kvöld skömmum fyrir ellefu að staðartíma eða kl. tvö að íslenskum tíma.