Innlent

Hælisleitandi gaf meðlimum Íslensku þjóðfylkingarinnar kaffisopa

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Morteza með kaffikönnuna á Austurvelli, honum var mjög vel tekið.
Morteza með kaffikönnuna á Austurvelli, honum var mjög vel tekið. Vísir/Stefán
„Ég vildi sýna þessu fólki hlýhug,“ segir Morteza Songolzadeh, þrjátíu og sex ára gamall hælisleitandi frá Íran. Hann ákvað að gefa meðlimum Íslensku þjóðfylkingarinnar heitan kaffisopa og súkkulaðimola á mótmælum þeirra fyrir framan Alþingi í gær. 

„Íslendingar eru vinsamlegasta þjóð sem ég hef haft kynni af á flótta mínum í Evrópu,“ segir Morteza. 

„Ég sá mikið af eldra fólki á mótmælunum sem óttast útlendinga. Mig langaði að nálgast þetta fólk af vinsemd. Ég er ekki hingað kominn til þess að ræna Íslendinga lífsgæðum og tækifærum,“ segir hann.



Morteza var dæmdur til dauða í Íran. Honum hefur verið synjað um hæli á Íslandi af Útlendingastofnun og þá staðfesti kærunefnd útlendingamála úrskurðinn.



„Ég hef eignast hundruð vina hér á Íslandi sem mér þykir vænt um. Ég þekki Íslendinga og veit hvað í þeim býr, sagði Morteza.



Mótmælendur í Íslensku þjóðfylkingunni tóku afar vel á móti Morteza og margir tóku hann tali. Honum var þakkaður kaffisopinn sem þótti góður. „Við elskum útlendinga og kunnum að meta þig,“ sagði einn þeirra. „Við viljum bara ekki hryðjuverkamenn til landsins,“ útskýrði hann fyrir Morteza. 


Tengdar fréttir

Samstöðufundur og mótmæli á sama tíma

Nokkur hundruð manns komu sama á Austurvelli í gær. Íslenska þjóðfylkingin mótmælti nýjum útlendingalögum. Á sama tíma hélt fjölmennur hópur samstöðufund með hælisleitendum og flóttafólki. Fólk rökræddi hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×