Irina náði hæst á tvíslá af einstökum áhöldum eða í 58. sæti en hún varð í 60. sæti á gólfi, í 64. sæti á jafnvægisslá og í 67. sæti í stökki. Irina Sazonova hefur þegar sett stefnuna á að komast aftur á Ólympíuleikana eftir fjögur ár og svo gæti farið að Ísland eignist í henni fastagest á leikunum.
Irina skar sig nokkuð úr að einu leyti meðal keppendanna í fimleikakeppni kvenna. Hún er nefnilega með risastórt húðflúr á vinstri fætinum. „Ég fékk þetta fyrir svona ári. Það var mjög sárt að æfa fimleika með nýtt húðflúr,“ viðurkennir Irina. Húðflúðrið á fætinum er þó ekki fullgert og hún á enn eftir að fá meiri lit í það. Irina er aftur á móti komin með Ríó 2016 flúrað aftan á hálsinn í tilefni af því að hún er nú komin í hóp Ólympíufara. Það þekkist meðal Ólympíufara, íslenskra sem erlendra. Hér á myndunum með fréttinni má sjá þessi tvö húðflúr Irinu.
