Fótbolti

Hallur: Ég reyndi allavega að fá gult spjald

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hallur Hallsson
Hallur Hallsson mynd/óskar andri
Það var lemstraður Hallur Hallsson sem ræddi við blaðamann að loknum leik Víkings Ólafsvíkur og Þróttar Reykjavíkur sem þeir fyrrnefndu unnu 3-2. Hallur hafði fengið olnbogaskot í fyrri hálfleik og fékk skurð við hægra augað af þeim sökum. Hann kláraði því leikinn með umbúðir á hausnum.

„Úrslitin eru talsvert sárari en þessi skurður. Þetta er ekki neitt,“ sagði Hallur. „Það er gífurlega sveggjandi að klúðra þessu svona í lokin en við tökum rútuferðina heim, jöfnum okkur á þessu og ræðum þetta okkar á milli.“

Eftir frábæra byrjun féllu Þróttarar aftarlega og fengu að lokum á sig þrjú mörk. „Við hleyptum þeim inn í leikinn og féllum alltaf aftar og aftar. Við reyndum að ýta þeim framar og spila okkar bolta en einhver röð mistaka skilar sér í því að við töpum þremur stigum í dag. Við vorum að hlaupa fyrir hvorn annan og lögðum okkur alla fram en ef við höldum því áfram þá fáum við punkta síðar meir.“

Þau stórtíðindi áttu sér stað í leiknum að Hallur fékk ekki gult spjald. „Mér fannst Guðmundur gefa þeim full margar aukaspyrnur miðað við hvað við fengum svo ég lét hann aðeins heyra það. Það verður allavega ekki sagt að ég hafi ekki reynt,“ sagði Hallur kíminn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×