Körfubolti

Bogut verður ekki meira með í NBA-úrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ástralski miðherjinn Andrew Bogut verður ekkert meira með Golden State Warriors liðinu í úrslitaeinvíginu á móti Cleveland Cavaliers en liðin eru að berjast um NBA-meistaratitilinn í körfubolta.

Andrew Bogut fór meiddur af velli í þriðja leikhlutanum í leik fimm þar sem að Cleveland Cavaliers minnkaði muninn í 3-2. Næsti leikur liðanna er í Cleveland á morgun þar sem Golden State liðið fær annað möguleika á því að tryggja sér titilinn.

Andrew Bogut lenti illa í leiknum og tognaði á hné þegar J.R. Smith hljóp á hann. Bogut verður frá í sex til átta vikur en að þeim tíma liðnum verða NBA-úrslitin löngu búin.  ESPN segir frá.

Myndatakan á hnénu sýndi að Andrew Bogut þarf ekki að fara í aðgerð vegna meiðslanna.

Andrew Bogut er með 3,2 stig, 3,90 fráköst og 2,0 varin skot að meðaltali á 12,0 mínútum í úrslitaeinvíginu. Hann tók ekki skot á körfuna í síðustu tveimur leikjum.

Bogut hefur verið að byrja leikina en ekki spila mikið. Golden State Warriors hefur tapað þeim 60 mínútum sem hann hefur spilað í einvíginu með 25 stigum.

Besti leikur hans í úrslitakeppninni var í upp á líf eða dauða leik fimm í einvíginu á móti Oklahoma City Thunder þar sem hann var með 15 stig og 14 fráköst.

Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×