Körfubolti

Skemmtileg stuttmynd um leik tvö í úrslitunum NBA | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry skorar yfir LeBron James í síðasta leik.
Stephen Curry skorar yfir LeBron James í síðasta leik. Vísir/Getty
Golden State Warriors er komið í 2-0 í lokaúrslitunum á móti Cleveland Cavaliers en hvernig fóru NBA-meistararnir að því að vinna leik tvö?

NBA-deildin hefur tekið saman skemmtilegt myndband frá leik tvö þar sem hægt að er sjá leikinn frá öllum sjónarhólum, hvort sem er um að ræða stuðningsmenn liðanna fyrir utan höllina, áhorfendur inn í höllinni, sjónvarpsmenn ESPN eða leikmenn liðanna tveggja.

Myndbandið rekur alla sögu leiksins, frá því að leikmenn liðanna mæta til leiks í Oracle-höllina í Oakland og eru kynntir til leiks en þaðan er síðan farið í gegnum leikinn og endað á því að sýna viðbrögð manna eftir leikinn.

Það er skemmtilegt hvernig er klippt á milli þess sem lýsendur leiksins voru að segja og það sem leikmennirnir sjálfir voru að segja sín á milli þegar stærstu atburðir leiksins gerðust og hvaða skilaboð þjálfararnir voru að koma áleiðis til sinna manna þegar liðin þurftu að svara góðum spretti mótherjanna.

Meðal þessa er þegar Cleveland komst sex stigum yfir og hvernig Golden State svaraði því sannkölluðum meistaratöktum sem skiluðu liðinu átján stiga sveiflu og fínu forskoti fyrir hálfleik.

Draymond Green átti frábært kvöld í liði Golden State Warriors með 28 stig og Stephen Curry bætti við 18 stigum. Það dugði ekki Cleveland Cavaliers LeBron James var með 19 stig. 8 fráköst og 9 stoðsendingar.

Cleveland Cavaliers fær næstu tvo leiki á heimavelli sínum og ætti þar að geta sýnt mun betri frammistöðu þar enda hafa LeBron James og félagar enn ekki tapað á heimavelli sínum í þessari úrslitakeppni.

Það er hægt að sjá þetta vel heppnaða myndband frá NBA-deildinni hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×