Lífið

Þingmenn fá falleinkunn: „Það er eins og Ögmundur hafi fundið hin föllnu Sovétríki og klætt sig í þau“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Haukur Bragason lætur þingmenn heyra það.
Haukur Bragason lætur þingmenn heyra það. vísir/ernir
Tískusérfræðingurinn Haukur Bragason mætti í Brennsluna á FM957 í morgun og fór yfir klæðaburð þingmanna í eldhúsdagsumræðum í þinginu í gær. Óhætt er að segja að sleggjan hafi verið á lofti.

„Ég var pínu grimmur í gær. Bjarni Ben og Árni Páll eru yfirleitt vel klæddir en ég gaf þeim fimm í einkunn í gær og þeir ollu mér vonbrigðum,“ segir Haukur um klæðaburð þá félaga á Alþingi í gær.

„Hinir voru í raun bara verri. Bjarni Ben er best klæddi maður Alþingis, hann verður að fá að eiga það en hann var rosalega leiðinlegur í gær, bæði ræðan og fötin. Þetta var pínu Hagkaup hjá honum,“ segir Haukur og bætir við að Bjarni hafi verið rykfallinn og það hefði þurft að dusta af honum.

„Hann var allt of pabbalegur og hann hefur sloppið svo vel við það hingað til,“ segir hann en Haukur var heldur ekki sáttur við Árna Pál, formann Samfylkingarinnar.

„Ég er aldrei hrifinn af mönnum með bindi í flokkslitnum. Ég veit ekki hvað það er, mér finnst það alltaf hallærislegt.“

Haukur kom auga á það að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, var með þumalhringinn á sínum stað.

„Þá ferð þú ekkert hærra en einn. Ég gaf honum einn útaf því að hann var ekki með þennan ljóta flagaraklút sem hann var með þegar hann tók við forsætisráðherraembættinu. Hann var síðan í mjög leiðinlegri skyrtu.“

Vinnur með jarðlitina

Haukur segir að Óttarr Proppé vinni alltaf með sömu litapallettuna. „Hann er mikið í jarðlitunum og oft í þessum sinnepsgulu jakkafötum. Ég held að hann pæli einna mest í fötunum, þó hann komi svona út.“

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, var í jakkafötum sem voru í senn óaðfinnanleg og óeftirtektarverð að mati Hauks.

„Þetta er mjög Sjálfstæðismannalegt, að vera í jakkafötum sem er erfitt að setja út á en þau eru bara svo óspennandi og maður tekur ekki eftir þeim.“

Haukur segir að menn séu oft klæddir eins og pabbar sínir á þingi. „Það er eins og Ögmundur hafi fundið föllnu Sovétríkin og klætt sig í þau. Það er einhver austantjaldsfílingur í þessu. Bindið er pottþétt svipað gamalt og ég.“

Haukur er með Twitter-reikninginn @Sentilmennid og tjáir sig oft á tíðum um tískuna eins og lesa mátti í gærkvöldi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×