Þetta kemur fram á Facebook-síðu Magnúsar Inga en ljóst er að hann náði ekki að safna nægilegum fjölda meðmælenda með forsetaframboði sínu og segir Magnús Ingi það vera ástæðuna fyrir því að hann dregur framboð sitt til baka. Svo virðist sem að helst hafi vantað upp á meðmælendur á Norðurlandi og Austurlandi.
Athygli vakti að Magnús Ingi bauð upp á hamborgara í skiptum fyrir undirskrift á meðmælendalista sinn en það virðist ekki hafa borið tilskilinn árangur.
Magnús Ingi bætir þó við að áhuginn á þingstörfum hafi kviknað á meðan hann vann að forsetaframboði sínu.
„Í öllum þessum framboðsmálum fór ég að pæla: af hverju ekki Magnús Ingi á Þingi? Nú styttist í alþingiskosningar og ég hef heilmargt fram að færa,“ segir Magnús Ingi sem vill berjast fyrir nýrri stjórnarskrá, minni sköttum og gegnsæi í stjórnsýslu svo dæmi séu tekin.
„Ef það er stjórnmálaafl á Íslandi sem vill vinna að þessu málum, þá er ég tilbúinn í samstarf,“ segir Magnús Ingi.