Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst segir að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Ólafi Ragnari Grímssyni forseta að draga framboð sitt til baka.
Eiríkur segir að ákvörðun forseta muni hafa mikil áhrif á komandi kosningabaráttu. Hann segir hins vegar erfitt að meta á þessum tímapunkti hvernig atkvæði stuðningsmanna Ólafs munu dreifast yfir á aðra frambjóðendur.
„Ég myndi halda að óbreyttu, og án þess að hafa séð tölurnar, að Ólafur og Davíð séu að leita á sömu mið. Þó hefði ég haldið að skírskotun Ólafs væri breiðari einfaldlega sökum þess að hann hefur verið forseti þetta lengi,“ segir Eiríkur.
Af því leiði að möguleikar Davíðs séu eilítið þrengri en ella. „Hins vegar getur þetta náttúrulega breytt stöðunni þannig að menn geti stillt upp á nýjan leik.“
Að mati Eiríks ofmat sitjandi forseti stuðning við áframhaldandi setu í embætti. „Það í samblandi við þessar upplýsingar í Panama-skjölunum auk framboða fleiri aðila hafa orðið til þess að Ólafur stóð einfaldlega frammi fyrir því að sigurlíkurnar voru ekki nægjanlegar.“
„Í ljósi umræðunnar í kjölfar þess að hann sagði frá framboði sínu og talna sem kannanir sýna þá sýnist mér þetta hafa verið rétt ákvörðun hjá honum,“ segir Eiríkur að lokum.
Telur ákvörðun Ólafs hafa verið rétta
Tengdar fréttir

Ólafur Ragnar fór að efast um framboð sitt fyrir fjórum dögum
Er ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við neinn frambjóðanda.

Ólafur Ragnar hættur við framboð
Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu.