Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir það skjóta skökku við að geta ekki svarað því til hvaða mál þurfi að aðstoða stjórnina með í gegnum þingið.
„Þeir gátu hvorki svarað um dagsetningu kosninga né hvaða mál þyrfti að hjálpa þeim með. Maður skyldi ætla að að þeir gætu sagt okkur hvaða mikilvægu mál þetta séu. Ég trúi ekki öðru en að búið verði að svara þessari spurningu fyrir þingfund [í dag]. Það er erfitt að skipuleggja þingstörf ef þeir sem eiga að stjórna vita hvorki hvenær eigi að ljúka þingi eða hvað eigi að taka fyrir,“ segir Helgi. „Við gerum lágmarkskröfu um ákveðinn ramma um þingstörfin, sérstaklega eftir það sem á undan hefur gengið.“

Ríkisstjórnin kom saman í gær til fyrsta fundar og voru þar þrjú mál rædd. Þar ræddi Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Panamaskjölin og viðbrögð stjórnvalda við þeim. Bjarni var sjálfur einn þeirra sem var í umræddum skjölum, sem og innanríkisráðherra, Ólöf Nordal.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. apríl