Í áskorun sem báðir bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins, varabæjarfulltrúar og fleiri skrifa undir segir að trúnaðarbrestur hafi skapast milli Sigmundar og landsmanna allra. Því skori hópurinn á Sigmund að segja sig frá störfum forsætisráðherra án frekari tafa.
Mikill styr stendur nú um ríkisstjórn Sigmundar í kjölfar umfjöllunar um tengsl hans við aflandsfélagið Wintris, sem skráð er á Bresku Jómfrúaeyjum. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga frá stjórnarandstöðunni um vantraust á forsætisráðherra og ríkisstjórnina, þingrof og kosningar auk þess sem þúsundir manns kröfðust afsagnar stjórnarinnar á Austurvelli í kvöld.
Akureyri er fjölmennasta bæjarfélag Norðausturkjördæmis, kjördæmis Sigmundar.
Jóhannes Gunnar Bjarnason, fyrrverandi oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, gerir málið sömuleiðis að umfjöllunarefni á Facebook –síðu sinni. Jóhannes, sem sat í átta ár í bæjarstjórn Akureyrar, segir „heiftarlegan dómgreindarbrest“ forsætisráðherra í Wintris-málinu gera hann óhæfan til áframhaldandi setu. Hann segir stuðningi sínum við Framsóknarflokkinn lokið ef Sigmundur segir ekki af sér.
„Ég hef verið félagi í Framsóknarflokknum í mörg ár. Margsinnis hef ég tekið snerrur við fólk, varið bæði stefnu og forystu,“ skrifar Jóhannes. „Það hef ég ávallt gert með góðri samvisku og talið mig hafa góðan málstað að verja. En í dag er mér misboðið.“
Innlegg Jóhannesar má sjá hér fyrir neðan.
Þingmenn stjórnarflokkanna hafa í dag verið tregir til þess að lýsa yfir stuðningi sínum við Sigmund. Ríkisstjórnarfundur, sem fara átti fram í fyrramálið, hefur verið afboðaður.