Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að nefndarfundir fastanefnda verði í auknum mæli haldnir í heyranda hljóði. Þingnefnd geti þó ákveðið að halda fund fyrir luktum dyrum í ákveðnum tilvilkum, til dæmis ef fjalla á um trúnaðargögn.
Píratar hafa ítrekað talað fyrir því að nefndarfundir verði gerðir opnir og aðgengilegir almenningi, en sú umræða kom til dæmis upp í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins um mætingu Pírata á slíka fundi. Þá bentu þingmenn flokksins á að Helgi Hrafn Gunnarsson væri sá eini sem gæti mætt á fundi fastanefnda án nokkurra árekstra.
Samkvæmt nýja frumvarpinu yrðu fundir jafnan haldnir í heyranda hljóði eftir því sem húsrúm leyfir og sendir út á vefnum.
„Frumvarpinu er ætlað að stuðla að því að fjölmiðlaumfjöllun og umræða meðal almennings geti farið fram samhliða nefndarstörfum en ekki einungis eftir að nefnd hefur afgreitt mál og það tekið til umræðu í þingsal að nýju,“ segir í greinargerð frumvarpsins. „Slíkt fyrirkomulag mundi enn fremur veita almenningi og öðrum hagsmunaaðilum færi á því að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum áður en mál væri komið á lokastig þinglegrar meðferðar.“
Allir þrír þingmenn Pírata eru flutningsmenn frumvarpsins.
