Innlent

Sigursteinn Másson: Ákvörðun Hvals hf að veiða ekki stórhvali í sumar mun stórbæta ímynd íslands

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Þetta eru mjög góðar fréttir," segir Sigursteinn Másson.
"Þetta eru mjög góðar fréttir," segir Sigursteinn Másson. Vísir
Sigursteinn Másson, talsmaður Alþjóðadýraverndunarsjóðsins fagnar ákvörðun Hvals hf um að veiða ekki stórhvali hér við land í sumar og næstu sumur.  Hann segir það eiga eftir að koma í ljós fljótlega hversu jákvæð þessi ákvörðun verður fyrir Ísland.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf, tilkynnti í gær að fyrirtækið myndi ekki veiða neina stórhvali í sumar né næstu sumur, nema Japanir liðki til í eftirlitskerfi sínu og taki upp nútímaleg vinnubrögð. Að öllu óbreyttu verði fyrirtækinu lokað og því engin starfsemi í Hvalstöðinni í Hvalfirði.

„Þetta eru mjög góðar fréttir. Mjög jákvæðar fyrir Ísland, fyrir hvali, dýravelferð og dýravernd. Þessi ákvörðun hefur klárlega verið mjög erfið fyrir Kristján Loftsson og það er saga á bak við þetta fyrirtæki og áreiðanlega erfitt að fara í gegnum allt sem hann er að gera. En það sem er á heildina litið þá mun þessi ákvörðun verða til góðs fyrir sjávarútveginn á Íslandi og fyrir íslenska hagsmuni almennt,” segir Sigursteinn.

Hann segir ákvörðunina eiga eftir að bæta ímynd Íslands til muna. „Ef hér er um varanlega ákvörðun að ræða þá er mér til efs að hægt sé að taka eina ákvörðun bætir jafn mikið ímynd Íslands eins og þessi. Það hafa verið vandræði í samskiptum, ekki bara við Bandaríkin heldur líka við Evrópu og ýmis önnur lönd, sem hafa litið þetta hornauga svo vægt sé til orða tekið. Með þessu þá er dýravelferð og dýravernd sett á þann stað á Íslandi sem þessi mál eiga að vera þannig að þetta er mjög afdrifarík ákvörðun sem mun koma fram tiltölulega fljótt hversu jákvæð hún er fyrir Ísland og íslenska hagsmuni,” segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×