„Mótið byrjar á kynbótahrossunum. Þá munu þau hross sem eru efst í hverju landi verða sýnd, en í kynbótahrossum er í raun líka keppni á milli landa. Síðan byrjar hin eiginlega íþróttakeppni seinna í vikunni og opnunarhátíðin er á miðvikudaginn,“ segir hann.
Stony var fenginn til þess að gera upphitunarmyndband fyrir mótið.
„Það sem er svo sérstakt er að það verður mikið gert úr norrænni menningu á mótinu. Hér verður til dæmis víkingaþorp, Samar sem búa í norðurhluta Finnlands, Svíþjóðar og Noregs verða hér með tjald og kynna sína menningu. Finnarnir verða með svona saunatjald og Íslendingarnir verða með lítið fallegt hús með íslenskri borðstofu.“
Hann segir að þegar líði á mótsvikuna muni fólki fjölga verulega en mótsstaðurinn, Herning, er lítill bær sem hefur sérhæft sig í stórum viðburðum á við tónleika og íþróttaviðburði.