Guðjón Baldvinsson gekk aftur í raðir Stjörnunnar í gær þegar hann skrifaði undir þriggja ára samning við Íslandsmeistarana í Pepsi-deild karla.
Guðjón er uppalinn Stjörnumaður og spilaði með liðinu áður en hann fór til KR og þaðan í atvinnumennsku. Guðjón kemur til Stjörnunnar frá Nordsjælland.
„Þetta er búið að vera skrítið frá fyrstu mínútu,“ sagði Guðjón um dvölina í Danmörku við Vísi í gær.
Þessi öflugi framherji, sem skoraði átta mörk í 20 leikjum fyrir KR 2011, fékk leikheimild í gær og má því vera með Stjörnunni þegar liðið mætir ÍA í fyrsta leik tólftu umferð Pepsi-deildar karla á Samsung-vellinum klukkan 16.00 í dag.
„Hvort það sé sniðugt að fljúga heim seint í kvöld [gærkvöldi] og spila leik á morgun án þess að æfa með liðinu veit ég ekki,“ sagði Guðjón Baldvinsson.
