Íslenski boltinn

„Sér­fræðingarnir sem hafa spáð okkur tólfta sætinu“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, gefur lítið fyrir spá sérfræðinganna í sjónvarpinu. 
Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, gefur lítið fyrir spá sérfræðinganna í sjónvarpinu.  Vísir/Diego

Breiðablik og ÍBV, skildu jöfn 1-1 á Kópavogsvelli í lokaumferð Bestu deildar karla í kvöld. Eyjamenn áttu möguleika á að tryggja sér sæti í efri hlutanum með sigri fyrir skiptingu en það tókst ekki.

„Í heildina eru þetta eflaust sanngjörn úrslit. Við vorum kannski að lifa pínu á lyginni þarna á köflum. Við vorum orðnir þreyttir og héldum boltanum kannski ekki nægilega vel og þar að leiðandi færðumst við aftar á völlinn. 

Að sama skapi fáum við dauðafæri í uppbótartíma þar sem við hefðum getað klárað þetta. Að ná í stig á móti Íslandsmeisturunum á heimavelli eru bara frábær úrslit fyrir ÍBV,“ sagði Þorlákur Már Árnason, þjálfari ÍBV, eftir jafntefli liðsins í kvöld.

„Liðsandinn er frábær hjá ÍBV. Við höfum stefnt að því að vinna alla leiki og eru það sérfræðingarnir sem hafa spáð okkur tólfta sætinu. Hugurinn okkar hefur alltaf verið sá sami. Úrslitalega séð höfum við verið mjög sterkir í síðustu leikjum. Breiðablik fékk fá alvöru færi í dag þótt þeir hafi verið helvíti góðir á vellinum. Við fengum líka helvíti góð færi til þess að klára þetta.“

„Við erum auðvitað svekktir að hafa ekki náð að klára þetta en við verðum líka að bera virðingu fyrir andstæðingnum sem spiluðu vel í dag,“ sagði Þorlákur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×