Skoðun

Rafmagnað jafnrétti

Halla Hrund Logadóttir skrifar

Við erum stödd í Tógó árið 2009. „Gjörðu svo vel“, segi ég við tógósku „systur“ mína og rétti henni fartölvuna mína. „Nýttu þetta nú sem allra best fyrir þig og þína.“ „Takk,“ segir hún og brosir hringinn.

Þetta er mér góð minning. Minning um að gefa gjöf sem gat breytt miklu fyrir viðtakanda, í landi þar sem lífsgæði eru takmörkuð. Skapað aðgang að þekkingu og menntun. Notkun tölvunnar reyndist þó vera vandkvæðum bundin því ekki var sjálfsagt að komast í rafmagn til að hlaða hana.

Hinn rafmagnslausi veruleiki

Þessi saga er alls ekki einstök – hún er veruleiki margra í Tógó. Árið 2010 höfðu einungis um 35% íbúa í landinu aðgang að rafmagni og svipaða sögu er að segja frá mörgum þróunarríkjum.

Störf kvenna í mörgum þessara landa eru oft að miklu leyti bundin við heimilið. Þvottur, þrif og eldamennska skipa gjarnan stóran sess, eins og hjá hinni tógósku „móður“ minni. Verkefnin eru yfirleitt knúin af handafli og tímarammi þeirra stýrist oft af dagsbirtu.

Rafmagn og efling stöðu kvenna

Nú á dögum hugsum við sjaldnast um það hversu mikið rafmagn eflir okkur í daglegu lífi í gegnum tækni og þekkingu sem það veitir okkur aðgang að. Án rafmagns er allt stopp.

Við tengjum rafmagn enn sjaldnar við jafnrétti kynjanna. Staðreyndin er þó sú að aðgangur að rafmagni og rafmagnsknúnum tækjum hefur í áratugi hjálpað konum á Vesturlöndum að fá tíma frá „hefðbundnu hlutverkum“ til að sækja störf og menntun utan heimilisins – og efla þannig stöðu sína í samfélaginu. Í Bandaríkjunum er t.d. oft rætt hvernig rafmagnsknúna þvottavélin veitti konum sveigjanleika til vinnu utan heimilis og þar með aukin fjárráð.

Margslungið samband

Þótt aðgangurinn að rafmagni gagnist báðum kynjum og samfélögum í heild er sambandið á milli rafmagns og eflingu kvenna í vanþróaðri ríkjum margslungið eins og SÞ, OECD, og fleiri fjalla um.

Að spara tíma við heimilisstörf til að geta sinnt öðrum verkefnum utan heimilisins er eitt. Að geta leitað upplýsinga og þekkingar í gegnum útvarp, sjónvarp og internetið, til að berjast gegn kúgun er annað. Einnig lengir rafmagn daginn þar sem lýsingu skortir og getur aukið öryggi kvenna sem vilja sækja þjónustu eða vinnu utan heimilisins. Að auki getur rafmagn haft áhrif á heilsu kvenna, en mengun innandyra sökum notkunar eldiviðar og lífræns úrgangs til hitunar og eldamennsku er stórt heilsufarsvandamál í mörgum fátækari löndum.

Ísland leiðandi á heimsvísu

Að undanförnu höfum við á Íslandi fagnað 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna með ýmsum viðburðum. Einn af þeim var ráðstefnan WEinpsirally sem haldin var á dögunum. Þar voru fluttir frábærir fyrirlestrar af ýmsum leikmönnum á Vesturlöndum sem deildu sinni sýn á hvernig hægt er að stuðla að frekari þátttöku kvenna, s.s. auka fjölda þeirra í framkvæmdastjórastöðum.

Orðræða ráðstefnunnar sýndi hversu margt hefur áunnist á Íslandi í jafnréttisbaráttunni, og þótt veruleikinn sé ekki enn þá fullkominn er Ísland leiðandi á heimsvísu þessu sviði.

Orku- og jafnréttismál: Samlegðaráhrif?

Árangur Íslands á sviði jafnréttismála er að mörgu leyti sambærilegur árangri okkar í orkumálum. Við erum þekkt á báðum sviðum sem veitir okkur trúverðugleika og áhrif.

Mögulega gæti Ísland náð fram samlegðaráhrifum þegar við beitum okkur á þessum tveimur sviðum erlendis s.s. í gegnum utanríkisþjónustu og einkaverkefni. Stöldrum við og hugsum hversu mikill fjöldi kvenna gæti notið þess ef orkuverkefni í vanþróaðri löndum væru hugsuð að einhverjum hluta, með eflingu kvenna í huga. Aðgengileg orka gæti breytt stöðu systur minnar í Tógó og fjölda annarra.

Deilum ávöxtunum: Lítum okkur fjær

Heilt á litið er mikilvægt í jafnréttisumræðunni að hugsa á skapandi hátt hvernig við getum lagt baráttu annarra kvenna í heiminum lið. Þar hafa íslenskar konur og íslenskt samfélag svo sannarlega margt fram að færa. Ræktum garðinn heima en lítum okkur ekki síður fjær.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×