Landsmenn mega búast við áframhaldandi lægðagangi næstu daga. Veðurstofan gaf út stormviðvörun í gær en gert er ráð fyrir að stormviðri haldi áfram með morgninum og lægi þegar líður á daginn.
Búast má við slæmu veðri á næstu dögum en engu í líkingu við ofsaveðrið á laugardaginn. „Það verður enn lægðagangur á færibandi,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
„Það verður hvassviðri næsta fimmtudag og laugardag, en það verður ekkert í líkingu við síðasta laugardag. Það mun hvessa og lægja á víxl og við eigum von á rigningu og éli í kjölfarið,“ segir hann.
Ofsaveður gekk yfir landið síðastliðinn laugardag sem olli umtalsverðu tjóni um allt land. Gífurlegt álag var á Neyðarlínunni en um 1.400 símtölum var svarað frá hádegi fram að miðnætti og um 300 björgunarsveitarmenn voru að störfum við aðstoð í óveðrinu víða um land.
Mesta álagið var á höfuðborgarsvæðinu en víða var götum lokað, lausamunir og þakplötur fuku og nokkuð var um vatnsleka.
Í Mosfellsbæ flæddi Varmá yfir bakka sína og olli nokkru tjóni í bænum sem var allur á floti. Þá fuku ótalmargar þakplötur af Egilshöll og flæddi vatn inn í bygginguna.
