„Þessi lína er svolítið til heiðurs verkafólki og verkalýðsbaráttu. Smá 1. maí í þessu,“ segir Helga.
„Venjulega gerum við bara eina línu á ári en við vildum gera eitthvað sérstakt fyrir HönnunarMars. Þessi hugmynd að verkfæralínu er búin að gerjast í okkur lengi svo við ákváðum bara að sýna það sem við erum að vinna að,“ segir Helga.
Línan er innblásin af gömlum verkfærum, en þau voru að gera upp hús í Hnífsdal þegar þau fundu gömul skæri í húsinu, sem þeim þótti svo falleg að smíðuð var nákvæm eftirmynd af þeim, sem notuð er í skartið.

Í línunni, sem er ekki fullgerð, má finna skæri, rakhníf og exi, ásamt lykli og oddi af blekpenna. Fengu þau ljósmyndarann Jónatan Grétarsson til þess að mynda línuna og verða myndirnar, ásamt skartgripunum til sýnis í nýrri vinnustofu þeirra á Skólavörðustíg 17a um helgina.
„Á laugardaginn klukkan þrjú verður svo gjörningur hjá okkur. Ég vil sem minnst segja um hann, en það á að koma á óvart,“ segir Helga leyndardómsfull að lokum.