Lífið

Sólsetrið laðar fram tískumyndir

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Erna Bergmann útbjó fjölbreyttar tískuljósmyndir á vegg Hafnarhússins.
Erna Bergmann útbjó fjölbreyttar tískuljósmyndir á vegg Hafnarhússins. Mynd/SagaSig
„Fatahönnunarfélagið fól mér það verkefni að vera listrænn stjórnandi yfir þessari sýningu og taka saman helstu tískuljósmyndir félagsmanna,“ segir Erna Bergmann um yfirlitssýninguna Varpað á vegg, sem er á vegg Hafnarhússins.

„Ég fékk grafískan hönnuð til liðs við mig, Hildu Stefánsdóttur, og við reyndum að gera þetta svolítið fallegt og elegant svo myndirnar njóti sín í botn.“ Sýningin er sett saman úr nýlegum íslenskum tískuljósmyndum og myndefnið er íslensk fatahönnun.

Gestir hafa kost á því að standa og virða sýninguna fyrir sér frá Tryggvagötunni en Erna bendir einnig á annan valmöguleika: „Það er líka mjög gott að fara á Gaukinn, sitja þar í kvistglugga og fá sér drykk, þá er maður bara með stúkusæti,“ segir hún og hlær, en Varpað á vegg setti hún upp líkt og tískutímarit, með forsíðu og kynningu áður en sýningin hefst.

„Við eigum svo ótrúlega mikið af hæfileikaríkum ljósmyndurum að ég tali nú ekki um fatahönnuði svo þetta er mjög skemmtileg yfirlitssýning,“ segir Erna hress að lokum.

Sýninguna Varpað á vegg er hægt að virða fyrir sér á vegg Hafnarhússins eftir sólsetur í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×