Sævar Birgisson hafnaði í 67. sæti í sprettgöngu á HM í norrænum greinum í Falun í Svíþjóð í gær. Sævar þurfti að hefja leik í undankeppni en 30 efstu í henni komust áfram í aðalkeppnina.
„Tímabilið er búið að vera í tómu tjóni hjá mér og miðað við það var árangurinn allt í lagi. En þetta var engan veginn í samræmi við þær væntingar sem ég hafði fyrir tímabilið,“ sagði Sævar í samtali við Fréttablaðið í gær.
Sævar var 80. í rásröðinni en keppendum er raðað niður miðað við punktastöðu á heimslista. „Það var allt í lagi að lenda í 67. sæti en ég var samt langt á eftir þeim bestu sem er ekki nógu gott. En ef maður er í jafn slæmri punktastöðu og ég er í þá lendir maður í verri aðstæðum og þá er tíminn fljótur að fara frá manni – það þarf svo lítið til.“
Hann nefnir sem dæmi að hann klessti aftan á annan keppanda sem hann ætlaði að taka fram úr. „Sá vék ekki þegar ég öskraði á hann og ég klessti á hann,“ segir Sævar sem missti af upphafi tímabilsins vegna veikinda.
„Ég náði ekki að byrja að keppa fyrr en í janúar og þá voru öll helstu punktamótin búin. Ég er vel þjálfaður en það vantar upp á keppnisformið. Miðað við allt er ég því temmilega sáttur.“
Tímabilið í tómu tjóni hjá mér

Tengdar fréttir

Sævar komst ekki í úrslit í sprettgöngu á HM
Ólympíufarinn úr leik í sprettgöngunni og kemst ekki í aðalkeppnina. HM í Falum hófst í dag.