Körfubolti

Sjáið Curry skora 17 stig á þremur mínútum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeMarcus Cousins kannar hitastigið á Curry í nótt.
DeMarcus Cousins kannar hitastigið á Curry í nótt. Vísir/Getty
Stephen Curry var ekki áberandi framan af leik Golden State Warroirs og Sacramento Kings í NBA-deildinni í nótt en þessi mikli skotmaður tók "örbylgjuofninn" á þetta í lok annars leikhlutans.

Curry var enn stigalaus í leiknum þegar aðeins rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks en besti leikmaður NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð hafði gefið sex stoðsendingar og tekið níu fráköst.

Fyrstu sex skot Curry í leiknum höfðu ekki ratað rétta leið og þar af voru fimm þeirra fyrir utan þriggja stiga línuna. Það leit því allt út fyrir afar rólegan leik hjá besta leikmanni Golden State.

Stephen Curry sjóðhitnaði hinsvegar í lok annars leikhluta. Hann byrjaði á því að setja þrist og minnka muninn í 44-47 þegar 3:16 voru til hálfleiks. Tveimur mínútum og 55 sekúndum síðar var hann búinn að skora sitt sautjánda stig í hálfleiknum.

Curry hitti úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum á þessum þremur mínútum og skoraði auk þess eina körfu eftir að hafa keyrt upp að körfunni. Sacramento Kings liðið skoraði samtals 11 stig á sama tíma og Curry gerði þessi 17 stig sín.

Stephen Curry bætti reyndar bara sex stigum við í seinni hálfleiknum og klikkaði á 9 af 11 skotum sínum fyrir utan þessar ótrúlegu mínútur í lok annars leikhlutans en hann náði þrefaldri tvennu, var með 23 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar.

Hér fyrir neðan má sjá Stephen Curry skora sautján stig á þremur mínútum og á þessu myndbandi sést vel hversu erfitt er að ráða við þennan frábæra leikmann þegar hann hitnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×