Innlent

Stormviðvörun: „Býður upp á vandræði“ að fara út í umferðina

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Veðrið mun ná hámarki um og upp úr hádegi á höfuðborgarsvæðinu en halda síðan áfram yfir landið. Mynd úr safni.
Veðrið mun ná hámarki um og upp úr hádegi á höfuðborgarsvæðinu en halda síðan áfram yfir landið. Mynd úr safni. Vísir/Pjetur
Veðurspáin og stormviðvörunin fyrir daginn er óbreytt. Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að nú þegar sé byrjað að snjóa á Suðvesturhorninu, nánar tiltekið í Reykjanesbæ, og að veðrið muni svo fikra sig inn eftir landinu.

Sjá einnig: Fylgstu með lægðinni nálgast á gagnvirku korti

Svona lítur veðurkort Nullschool út.Mynd/Nullschool
Foreldrar barna á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hvattir til að fylgjast vel með aðstæðum í morgunsárið og fylgjast með skilaboðum frá skólastjórnendum. Búast má við því að skólastarf verði fyrir barðinu á veðrinu í dag, þó mismunandi eftir hverfum.

Haraldur segir skólastjórnendur og foreldra þurfa að vega og meta í dag hvort börn séu send í skólann. Hann varar við því að fara að óþörfu í umferðina. „Að fara eitthvað af stað í umferðina, það bara býður upp á vandræði, því færðin er svo fljót að spillast og þá er viðbúið að allt stíflist,“ segir hann.

Veðrið mun ná hámarki á höfuðborgarsvæðinu um hádegisbil. „Jú svona um og upp úr hádegi og fer svo líklega að lægja nálægt kaffinu hérna á suðvesturhorninu,“ segir Haraldur.

Vindakort Veðurstofu Íslands fyrir hádegið.Mynd/Veðurstofan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×