
Ekki stuðningur við hernað
Í svarinu sem Helgi vísaði til sagði Sigmundur Davíð forsætisráðherra að samþykki Íslands við að vera á lista hinna viljugu þjóða, eins og listi yfir stuðningsþjóðir við innrásina í Írak var kallaður, hafi ekki falið í sér stuðning við hernaðaraðgerðir.
„Í aðeins einu tilviki hefur Ísland haft beina aðkomu að ákvörðun um hernaðaríhlutun en það var vegna árásarinnar á Líbýu árið 2011,“ sagði Sigmundur í svarinu og sagði að ef biðjast ætti afsökunar á einhverju þá væri það á þeirri ákvörðun.

Helgi er allt annað en ánægður með svar forsætisráðherrans. „Það er algerlega óboðlegt að í formlegu svari til Alþingis láti forsætisráðherra eins og þessi yfirlýsing hafi aldrei verið gefin,“ sagði hann.
„Jafn hörmuleg og hún var og jafn rík ástæða og það væri til að leyna yfirlýsingu Davíðs Oddssonar 19. mars 2003 og raun ber vitni, en það er því miður ekki hægt vegna þess að við vorum gerð ábyrg fyrir því sem þarna fór fram, illu heilli, herlaus og friðsöm þjóð sem alltaf höfðum verið það fram að því og vildum vera það,“ sagði hann.
Helgi kallaði eftir því að Sigmundir myndi svara þinginu upp á nýtt. „Ég held að það sé full ástæða fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson að íhuga það að afturkalla svar sitt, svara þinginu aftur um þetta efni og sannarlega til að biðja afsökunar á þessum leiðu mistökum og hörmulegu,“ sagði hann svo að lokum.