Körfubolti

Golden State jafnaði besta árangur sögunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Danilo Gallinari reynir að komast framhjá Draymond Green.
Danilo Gallinari reynir að komast framhjá Draymond Green. vísir/Getty
Meistararnir í Golden State Warriors jöfnuðu í nótt met í NBA-deildinni er liðið vann Denver Nuggets á útivelli, 118-105.

Golden State hefur þar með unnið alla fimmtán fyrstu leiki sína í deildinni en aðeins tvö lið í sögunni hafa byrjað jafn vel. Washington Capitols gerði það haustið 1948 sem og Houston Rockets árið 1993.

Enginn meistari hefur hins vegar byrjað jafn vel og Golden State en með sigrinum í nótt tók liðið fram úr meistaraliði Boston Celtics frá 1957.

Sigurinn í nótt var öruggur en eftir að Klay Thompson, sem skoraði 21 stig í nótt, kom Golden State yfir með þristi í öðrum leikhluta lét liðið aldrei aftur af forystuni.

Steph Curry gat leyft sér að hvíla allan fjórða leikhlutann en hann skoraði nítján stig í leiknum. Hann hafði skorað minnst 20 stig í öllum hinum leikjum tímabilsins.

Oklahoma City vann Dallas, 117-114, þar sem Russell Westbrook var með 31 stig og ellefu stoðsendingar. Hann skoraði tværlykilkörfur á lokamínútu leiksins en Dallas, sem hafði unnið sex leiki í röð, var með myndarlegt forskot í þriðja leikhluta.

Portland vann LA Lakers, 107-93. Damien Lillard var með 30 stig og þrettán fráköst fyrir Portland. Kobe Bryant skoraði átján stig fyrir Lakers en nýtti aðeins sex af 22 skotum sínum í opnum leik.

Úrslit næturinnar:

LA Clippers - Toronto 80-91

Brooklyn - Boston 111-101

New Orleans - Phoenix 122-116

Oklahoma City - Dallas 117-114

Denver - Golden State 105-118

LA Lakers - Portland 93-107

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×