Leiðtogarnir funduðu einnig um viðbrögð ESB við árásunum og voru þeir sammála um að herða þyrfti landamæraeftirlit á ytri landamærum ESB án tafar.
Cameron sagðist styðja hertar loftárásir Frakka á ISIS í Sýrlandi í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París og til þess að sýna þann stuðning í verki mun franski loftherinn fá aðgang að herflugstöð breska flughersins á Krít.
Sjá einnig: Sextán handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í Brussel
Breski forsætisráðherann sagði að í vikunni væri von á aðgerðaráætlun Breta gagnvart ISIS en Cameron hefur lýst því yfir að Bretland muni taka þátt í loftárásum á ISIS.
Leiðtogarnir sammældust um að mikilvægt væri að ríki ESB gætu deilt upplýsingum sín á milli á mun skilvirkari hátt auk þess sem koma þyrfti lögum yfir ólöglega skotvopnamarkaði til þess að koma í veg fyrir árásir hryðjuverkamenn.
Sjá einnig: Brussel enn í herkví
Hollande lýsti því yfir að Frakkar myndu enn herða loftárásir gegn ISIS enda væri von á Charles de Gaulle, stærsta herskipi Frakka, til þess að taka þátt í loftárásunum.
Leiðtogarnir fóru einnig að Bataclan-tónlistarhöllinni þar sem þeir minntust fórnarlamba árásanna en 130 létust og hundruð særðust í árásunum.