Þetta kom fram á blaðamannafundi sem belgíski saksóknarinn Eric van der Sypt boðaði til klukkan 23:30 að íslenskum tíma í kvöld. Mikil leynd hefur hvílt yfir aðgerðum lögreglu og var farið fram á að fjölmiðlar hefðu sig lítið í frammi í kvöld og sömuleiðis notendur samfélagsmiðla á meðan á aðgerðunum stæði.
Blaðamönnum gafst ekki kostur á að spyrja saksóknara út í atburði kvöldsins en fram kom í máli saksóknara að á morgun komi í ljós hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum sextán eða hluta þeirra. Engar upplýsingar voru gefnar um hverjir hinir sextán væru.
Nítján húsleitir fóru fram í Brussel og nágrenni í kvöld og þrjár til viðbótar í borginni Charleroi. Hvorki fundust skotvopn né sprengiefni við leit lögreglu að því er fram kom í máli saksóknarans.
Að neðan má sjá mynd frá blaðamannafundinum í Brussel í kvöld.
#BrusselLockDown update starting now pic.twitter.com/io9evOfQZI
— Jonathan Swain (@SwainITV) November 22, 2015
Lögregla særði ökumann sem sinnti ekki skipunum í Molenbeek hverfinu í kvöld. Hann var handtekinn en ekki liggur fyrir hvort maðurinn tengist aðgerðum lögreglu er snúa að yfirvofandi hryðjuverkaógn í Evrópu. Getgátur voru uppi í miðlum ytra að Sala Abdeslam hefði mögulega verið handtekinn í kvöld en saksóknari staðfesti að svo væri ekki. Hann gengi enn laus.
Yfirvöld í Belgíu lýstu yfir hæsta viðbúnaðarstigi í borginni í kvöld og hefur forsætisráðherra Belgíu, Charles Michael, lýst því yfir að skólar, háskólar og lestarkerfi borgarinnar yrðu lokuð á morgun. Hæsta viðbúnaðarstigi var lýst yfir í gær, laugardag, sem leiddi til þess að verslunum, kaffihúsum og opinberum byggingum var lokað.
Blaðamannafundur saksóknara var í beinni útsendingu á Sky News sem fylgist áfram vel með gangi mála. Útsendinguna má sjá hér að neðan en hægt er að spóla til baka í spilaranum til að sjá blaðamannfundinn.
Þessi frétt var síðast uppfærð klukkan 23:59