Innlent

Jólalegt í Reykjavík: Snjódýpt 21 sentímetri í morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Það var jólalegt í Þingholtunum í morgun þegar flugvél bjó sig undir að lenda á Reykjavíkurflugvelli.
Það var jólalegt í Þingholtunum í morgun þegar flugvél bjó sig undir að lenda á Reykjavíkurflugvelli. vísir/GVA

Snjódýpt í Reykjavík var 21 sentímetri klukkan níu í morgun. Reykvíkingar fóru ekki varhluta af þeim snjó sem var á svæðinu og en snjóruðningstæki hófu mokstur undir morgun á öllum helstu umferðaræðum og strætisvagnaleiðum, en hliðargötur verða ekki hreinsaðar.

Um miðnætti í nótt kom hægfara skýjabakki að landi við Reykjavík í nótt og staldraði við yfir höfuðborgarsvæðinu fram undir klukkan sex í morgun og blasti afraksturinn við íbúum höfuðborgarsvæðisins þegar þeir fóru á fætur, en nær samfelld él voru í Reykjavík nótt samkvæmt veðurfræðingi.

Í Bolungarvík var snjódýpt sjö sentímetrar klukkan níu í morgun og ellefu sentímetrar í Stykkishólmi.

Norðlæg átt verður ríkjandi í dag og á morgun um 8-15 m/s, hvassast nyrst á landinu. Snjókoma eða él um norðanvert landið, en dregur úr úrkomu sunnanlands í dag. Áfram éljagangur á morgun, en þurrt að kalla suðvestantil og á Austfjörðum. Kólnandi veður, frost 3 til 15 stig í nótt og á morgun, kaldast inn til landsins.

Borgarbúar og nærsveitungar þurftu að munda sköfuna og jafnvel kústana í morgun.Vísir/GVA
Hallgrímskirkja er sjaldan fallegri en á snjóþungum og dimmum morgni.Vísir/GVA
Helstu stofnæðar og stærri götur voru ruddar í morgun.Vísir/GVA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×