Innlent

Lækka leikskólagjöld um 25 prósent

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikskólagjöld eru misjöfn eftir sveitarfélögum. Myndin er af leikskólabörnum en tengist annars fréttinni ekki.
Leikskólagjöld eru misjöfn eftir sveitarfélögum. Myndin er af leikskólabörnum en tengist annars fréttinni ekki. Vísir/Stefán

Frá og með áramótum munu leikskólagjöld á Seltjarnarnesi lækka um 25% og verða þar með þau lægstu á landinu. Þetta kemur fram í nýrri fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2016 og næstu þrjú ár þar á eftir. Hún var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. Gert er ráð fyrir að tekjur bæjarfélagsins verði tæpir 2,5 milljarðar króna og rekstrarafgangur verði 16 milljónir króna.

„Lækkun leikskólagjalda um 25% frá 1. janúar er ætlað að koma til móts við barnafjölskyldur í bæjarfélaginu. Tómstundastyrkir með hverju barni 6 – 18 ára verða kr. 50.000,- og niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum, sem nú nema kr. 75.000,- verða einnig hækkaðar frá 1. janúar nk,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.

Álagning fasteignagjalda í A-flokki verður 0,20% af matsverði íbúðarhúsnæðis og lóðar og álagningarprósenta útsvars verður langt undir hámarki eða 13,70%, en hámarkið er 14,52%.

Fram kemur að helstu framkvæmdir á næsta ári felist í byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis. Einnig stendur til að endurnýja gervigrasið á knattspyrnuvelli Íþróttafélagsins Gróttu ásamt því að sinna öðrum almennum viðhaldsframkvæmdum. Þá er fullyrt að skuldahlutfall sé komið undir 50% og fari lækkandi á hverju ári.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×