Körfubolti

Ekkert NBA-lið hefur byrjað titilvörnina betur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
NBA-meistarar Golden State Warriors eru ekki að láta sigur sinn í NBA-deildinni síðasta sumar trufla mikið einbeitinguna nú þegar nýtt NBA-tímabil er farið af stað.

Lið Golden State Warriors vann einn einn stórsigurinn í nótt þegar liðið fór illa með sterkt lið Memphis Grizzlies með 50 stigum.

Með þessum stórsigri sá Stephen Curry og félagar til þess að þeir eru 100 stig í plús í fyrstu fjórum leikjunum sínum sem hefur aldrei gerst áður í sögu NBA-deildarinnar.

Gamla metið var orðið 54 ára gamalt en Boston Celtics liðið frá 1961 vann fyrstu fjóra leiki sína með samtals 99 stigum.

Stephen Curry skoraði 30 stig í sigrinum á Memphis Grizzlies og hefur þar með skorað 37,0 stig að meðaltali í fyrstu fjórum leikjunum.

Það kemur ekki mörgum á óvart að Curry hafi verið kosinn besti leikmaður Vesturdeildarinnar í fyrstu vikunni.

Curry skoraði 53 stig í leiknum á undan og að þessu sinni var hann með 21 af stigum sínum í þriðja leikhlutanum.

Það er sama hvar er litið því allt Warriors liðið er spila vel undir stjórn Luke Walton sem stýrir liðinu í fjarveru Steve Kerr.

Golden State hélt Grizzlies-liðinu í 27 prósent skotnýtingu, vann fráköstin 65-44 og skoraði 36 stig á móti 10 úr hraðaupphlaupum.



Fyrstu fjórir leikir Golden State Warriors 2015-16:

New Orleans Pelicans: 16 stiga sigur (95-111)

Houston Rockets: 20 stiga sigur (112-92)

New Orleans Pelicans: 14 stiga sigur (134-120)

Memphis Grizzlies: 50 stiga sigur (119-69)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×