Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi í dag sölu Arion banka á hlutum í Símanum til valinna viðskiptavina fyrir almennt útboð fyrr í þessum mánuði. Í ræðu undir liðnum störf þingsins sagði hann að eflaust væru margir með óbragð í munni eftir sölu Arion banka á hlutafé í Símanum „á vildarkjörum til góðvina sinna“.
Salan hefur sætt harðri gagnrýni en valinn hópur viðskiptavina bankans og fjárfesta fengu að kaupa samtals 10 prósenta hlut í Símanum á hagstæðari kjörum en buðust svo í almennu útboði á hlutunum. Í morgun greindi Morgunblaðið svo frá því að Arion banki hefði komið alls staðar að borðinu þegar tveir fasteignasjóðir seldu eignir að virði 18 milljarða til fasteignafélagsins Reita.
Arion banki átti í fasteignasjóðunum tveimur, sem bankinn sá um að reka auk þess að eiga hlut í Reitum, sem keypti fasteignirnar, og að hafa séð um sölu og fjármögnun viðskiptanna.
„Þetta er ekkert annað en 2007 siðmengunin sem er að læðast aftan að okkur á fullri ferð, og ríkisstjórnin er þar ekki betri en aðrir, með sýnum vinnubrögðum bak við luktar dyr,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Og fara þó þar fyrir þeir menn sem sennilega hafa haft stærstu orðin af öllum í lýðveldissögunni um mikilvægi gagnsæis hér í þessum sal, á síðasta kjörtímabili.“
Steingrími segir að draga eigi þann lærdóm af þessu að aðskilja þurfi viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi.
„Bankarnir, eða Arion banki í þessu tilviki, er að misnota það að geta möndlað bæði með eignir og eignasöfn sem þeir hafa í höndunum, rekið fyrirtækjaráðgjöf, og verið svo viðskiptabanki og fjármagnað viðskipti með þessu tagi,“ sagði hann og sagði það stæði upp á stjórnvöld að gera eitthvað í þessu máli.
„2007 siðmengunin sem er að læðast aftan að okkur á fullri ferð“
Aðalsteinn Kjartansson skrifar
