Handbolti

Füchse Berlin heimsmeistari félagsliða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlingur tók við Füchse Berlin af Degi Sigurðssyni í sumar.
Erlingur tók við Füchse Berlin af Degi Sigurðssyni í sumar. vísir/daníel
Erlingur Richardsson byrjar vel sem þjálfari Füchse Berlin en í kvöld stýrði hann þýska liðinu til sigurs á Veszprém frá Ungverjalandi í úrslitaleik HM félagsliða í Katar.

Leiknum lyktaði með eins marks sigri Füchse Berlin, 28-27, en úrslitin réðust í framlengingu.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk fyrir Füchse Berlin en hann skoraði sigurmark liðsins í sigrinum á Barcelona í undanúrslitunum á þriðjudaginn.

Kent Robin Tonnensen var markahæstur í liði Füchse Berlin með sex mörk en Renato Sulic skoraði mest fyir Veszprém, eða átta mörk. Aron Pálmarsson gerði eitt mark fyrir ungversku meistarana.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk fyrir Barcelona sem vann 10 marka sigur, 30-20, á Sydney University Handball í leiknum um 3. sætið.

Barcelona, sem vann mótið í fyrra, var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×