Um eitt þúsund Íslendingar fylgdust með leikjum landsliðsins í Berlín, þeirra á meðal hjónin Eyjólfur Ólafsson og Guðrún Soffía Sigurðardóttir sem búa í Hafnarfirði. Eyjólfur segir að þau hjónin hafi ekki haft miklar væntingar fyrir mót, sérstaklega eftir að Ísland lenti í sannkölluðum dauðariðli.
Sjá einnig: Er körfuboltinn kominn heim?

Frábær stemning
Leikmenn landsliðsins spiluðu fimm leiki á sex dögum og því snerist líf þeirra Eyjólfs og Guðrúnar eðlilega um körfubolta nær allan tímann.
„Fyrstu dagana hittust stuðningsmenn í bjórgarðinum á Urban Spree en síðar á Holiday Inn sem stendur við hlið hallarinnar. Stemningin fyrir leikina var vægast sagt frábær og fullt út úr dyrum af bláklæddum Íslendingum. Þar fékk maður sér kannski einn öl eða tvo og spjallaði við aðra stuðningsmenn áður en öll hersingin gekk að höllinni.
Við vorum með föst sæti á leikjunum og hvöttum strákana þar til við urðumn hás og aum í lófunum. Eftir leikina hittum við svo aðra stuðningsmenn aftur á Holiday Inn þar sem farið var yfir leiki dagsins og gengi.”

Lokaleikur liðsins gegn Tyrklandi var stórkostleg skemmtun en hann tapaðist eftir framlengdan leik.
„Leikurinn gegn Tyrklandi var meiriháttar upplifun fyrir stuðningsmennina. Stúkan lagði allt í leikinn, alveg eins og strákarnir. Auðvitað var sárt að tapa leiknum en stemningin á pöllunum, bæði á leiknum og eftir hann, var ógleymanleg og verður líklega aldrei endurtekin. Við klöppuðum og sungum allan leikinn og fengum liðsinni frá flestum Þjóðverjum, Serbum og Ítölum á vellinum. Aðaltrommuleikari stuðningshóps Þjóðverja útvegaði okkur sjö trommur og trommaði með okkur allan leikinn.“
Sjá einnig: Aðeins fimm með betri þriggja stiga nýtingu á EM en Haukur Helgi
Þau hjónin segja að þrátt fyrir naumt tap hafi andrúmsloftið eftir leikinn verið þannig að viðstaddir muni seint gleyma því.
„Hápunkturinn var svo þegar við sungum öll sem eitt „Ég er kominn heim.“ (Ferðalok) Sannarlega mögnuð upplifun sem mun styrkja bönd okkar í körfuboltanum á Íslandi og er upphafið að einhverju mögnuðu.”