Tæplega sjö hundruð manns er nú haldið í sóttkví eftir að sextán ára gömul stúlka lést af völdum ebólu í Vestur-Afríkuríkinu Sierra Leóne á sunnudag.
Stúlkan bjó í Robureh, úthverfi bæjarins Makeni í norðurhluta landsins, en ekki hafa borist fregnir af ebólatilvikum á þessu svæði síðasta hálfa árið.
Íbúar Robureh, þeirra á meðal foreldrar, bekkjarfélagar og ættingjar stúlkunnar, verður haldið í sóttkví næstu þrjár vikurnar.
Tæplega sjötugur maður lést af völdum ebólu í héraðinu Kambíu fyrir um hálfum mánuði, en ekki er talið að málin tengist.
Alls er rúmlega 1.500 manns haldið í sóttkví vegna gruns um ebólusmit í Sierra Leóne þessa dagana.
Um 11 þúsund af 28 þúsund smituðum hafa látið lífið af völdum ebólu í Vestur-Afríku frá því að fyrsta tilvikið kom upp í Gíneu í desember 2013.
