Handbolti

Ljónin skelltu í lás | Óvænt tap hjá Magdeburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skoraði þrjú mörk gegn Göppingen.
Alexander skoraði þrjú mörk gegn Göppingen. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Göppingen að velli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Ljónin spiluðu gríðarlega sterkan varnarleik og Darko Stanic var góður í markinu. Enda tókst leikmönnum Göppingen aðeins að skora 14 mörk í öllum leiknum. Á meðan skoruðu leikmenn Löwen 25 mörk og niðurstaðan því 11 marka sigur þeirra, 25-14.

Uwe Gensheimer var markahæstur í liði Löwen með 11 mörk en Andy Schmid kom næstur með fjögur. Alexander Petersson gerði þrjú mörk en Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.

Lærisveinar Geirs Sveinssonar í Magdeburg máttu sætta sig við óvænt eins marks tap, 26-25, fyrir nýliðum Leipzig. Marvin Sommer skoraði sigurmark Leipzig tveimur sekúndum fyrir leikslok en hann var markahæstur í liði nýliðanna með 11 mörk.

Austurríkismaðurinn Robert Weber, markahæstur leikmaður þýsku deildarinnar í fyrra, skoraði mest fyrir Magdeburg, eða níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×