Enski boltinn

West Ham hefur áhuga á leikmanni Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zaza skoraði 11 deildarmörk fyrir Sassoulo í fyrra.
Zaza skoraði 11 deildarmörk fyrir Sassoulo í fyrra. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið West Ham United hefur áhuga á Simone Zaza, framherja Juventus.

Talið er að West Ham reyni að fá Zaza á láni en félagið er tilbúið að borga Juventus 2,2 milljónir punda til að tryggja sér þjónustu framherjans út tímabilið.

Zaza gekk endanlega til liðs við Juventus í sumar en á árunum 2013-15 lék hann með Sassoulo þótt hann væri að hluta til í eigu Juventus.

Zaza gerði 20 mörk í 64 deildarleikjum með Sassoulo og góð frammistaða hans með liðinu fór ekki framhjá Antonio Conte, landsliðsþjálfara Ítalíu.

Zaza lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ítalíu gegn Hollandi 4. september á síðasta ári og fimm dögum síðar skoraði hann sitt fyrsta landsliðsmark í 2-0 sigri á Noregi í undankeppni EM 2016.

Ólíklegt þykir að Zaza fái mörg tækifæri með Ítalíumeisturum Juventus í vetur og því hefur hann hug á að færa sig um set til að auka möguleika sína á að komast í landsliðshópinn fyrir EM í Frakklandi 2016.

West Ham er í vandræðum vegna meiðsla sóknarmanna sinna en Andy Carroll, Mauro Zarate og Enner Valencia eru allir á sjúkralistanum eins og er.

West Ham er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með þrjú stig eftir þrjár umferðir.


Tengdar fréttir

Fyrsti sigur Bournemouth í efstu deild

Fimm leikjum er lokið í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Bournemouth skoraði sín fyrstu mörk í ensku úrvalsdeildinni og vann einnig sinn fyrsta sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×