Innlent

Íslendingar biðu í um tvo tíma í flugvél á Shannon-flugvelli á Írlandi í dag

Birgir Olgeirsson skrifar
Shannon-flugvöllurinn á Írlandi.
Shannon-flugvöllurinn á Írlandi. Vísir/Getty
Hundrað fjörutíu og fimm Íslendingar biðu í um tvo tíma í flugvél frá PrimeraAir á Shannon-flugvelli á Írlandi í dag. Íslendingarnir voru á leið frá Tenerife á Kanaríeyjum til Keflavíkurflugvallar þegar ákveðið var að millilenda á Shannon-flugvelli til að taka eldsneyti. Ástæðan var sögð sú að ekki væri nóg eldsneyti á vélinni ef nýta þyrfti Akureyrarflugvöll sem varaflugvöll.

Við millilendinguna á Írlandi var áhöfninni bannað að fljúga því hún hafði unnið of lengi. Var henni því skipað að taka lágmarkshvíld og var farið í að útvega farþegunum hótelgistingu og er áætluð brottför til Íslands klukkan tvö að staðartíma á Írlandi á morgun.

Torfi Geirmundsson, hársnyrtir úr Reykjavík, var einn þeirra sem var í flugvélinni. Þegar Vísir náði sambandi við hann höfðu farþegarnir beðið í vélinni í tvo tíma en fljótlega eftir símtalið var þeim hleypt inn á flugvöllinn og voru á leið upp á hótel þegar þetta er skrifað.

Um var að ræða leiguflug á vegum Plúsferða og Úrval Útsýn en Torfi segir farþegana hafa fengið litlar upplýsingar á meðan beðið var í vélinni. „Við reyndum að tala við fólkið sem var þarna og sögðu þetta ekki ganga svona, það væru börn í vélinni og þetta væri ekki viðunandi staða,“ segir Torfi en farþegunum var að lokum boðið upp á vatn til að auðvelda biðina.

Uppfært klukkan 23:35:

Í upphaflegu útgáfunni á fréttinni kom fram að biðin í vélinni hefði tekið fjóra tíma en aðrir farþegar segja hana hafa verið nær tveimur tímum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×