Sport

Gullstelpurnar koma heim til að taka þá á Íslandsmótinu | Metþátttaka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir.
Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir. Vísir/Andri Marinó
Íslandsmótið í strandblaki fer fram um næstu helgi og aldrei áður hafa verið fleiri lið í mótinu hvort sem litið er á meistaraflokk eða unglingaflokka.

Þetta er síðasta mót sumarsins í strandblaki en 54 lið taka þátt í meistaraflokki og 20 lið verða með í unglingaflokki. Þetta kemur fram á heimasíðu Blakssambands Íslands sem segir frá því að hvort tveggja sé metþátttaka.

Mótið verður haldið á glæsilegum strandblaksvöllum við Laugardalslaug og verða spilaðir 113 leikir í öllum flokkum þessa þrjá daga sem mótið fer fram.

Gullverðlaunahafar á Smáþjóðaleikunum, Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir, koma heim frá Danmörku til að taka þátt en þær slógu í gegn í Laugardalnum í vor.

Það hefur verið gríðarmikill vöxtur í strandblaki á Íslandi undanfarin ár og má segja að alger sprengja hafi verið í fjölda iðkenda núna í sumar.

Strandblak hefur verið gríðarlega vinsælt á síðustu Ólympíuleikum og þá myndast alltaf mjög skemmtileg stemmning á leikjunum.

Veðrið hefur að sjálfsögðu mikil áhrif en Strandblaksnefnd BLÍ segist vera búin að ná samningum við veðurguðina og nú er bara að vona að þeir samningar haldist.

Inngangur fyrir áhorfendur er fyrir aftan hjá útiklefunum og þar geta áhorfendur fengið að upplifa sannkallaða strandblaksstemmningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×