Körfubolti

Sá stoðsendingahæsti í NBA í dag samdi við sitt áttunda NBA-félag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Miller.
Andre Miller. Vísir/Getty
NBA-liðið Minnesota Timberwolves hikar ekki við að semja við eldri leikmenn því auk þess að gera tveggja ára samning við hinn 39 ára gamla Kevin Garnett þá hefur félagið einnig samið við leikstjórnandann og reynsluboltann Andre Miller.

Andre Miller er 39 ára gamall og framundan er sautjánda tímabil hans í NBA-deildinni. Miller mun keppa um leikstjórnendastöðuna við Spánverjann Ricky Rubio og nýliðann Tyus Jones. Andre Miller gerði eins árs samning við Minnesota Timberwolves.

Miller er að fara að spila fyrir sitt áttunda NBA-félag á ferlinum en hann var með 4,4 stig og 3,5 stoðsendingar að meðaltali með Washington Wizards og Sacramento Kings á síðasta tímabili.

Auk þessara tveggja liða þá hefur hann einnig spilað fyrir Cleveland Cavaliers, Los Angeles Clippers, Philadelphia 76ers, Portland Trail Blazers og Denver Nuggets.

Andre Miller hefur spilað yfir 80 leiki á fjórtán af sextán tímabilum sínum í NBA og er í dag sá leikmaður deildarinnar sem hefur gefið flestar stoðsendingar á ferlinum. Miller er kominn upp í níunda sæti á þeim lista með 8437 stoðsendingar í 1265 leikjum.

Miller hefur ennfremur þann vafasama heiður að vera eini leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar með að minnsta kosti 16 þúsund stig, 8 þúsund stoðsendingar og 1500 stolna bolta án þess að hafa nokkurn tímann spilað Stjörnuleik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×