Íslenska karlalandsliðið mætir tveimur Íslandsvinum þegar liðið spilar tvo landsleiki gegn Hollandi á föstudag og sunnudag.
Bæði liðin eru undirbúa sig fyrir Evrópukeppnina í næsta mánuði þar sem Ísland leikur í B-riðli í Berlín á meðan Holendingar leika í C-riðli í Zagreb gegn Króatíu, Makedóníu, Georgíu, Grikklandi og Slóveníu.
Fyrri leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn kl. 19.15 föstudaginn 7. ágúst. Liðin æfa svo laugardag og hvílast og leika seinni leikinn sín á milli í Laugardalshöllinni sunnudaginn 9. ágúst kl. 16.00.
Þetta eru síðustu landsleikir íslenska liðsins hér heima en liðið fer á tvö æfingamót síðar í ágúst fyrir brottför til Þýskalands.
Í hollenska hópnum eru meðal annars fyrrum NBA-leikmaðurinn og fyrrum samherji Jóns Arnórs Stefánssonar, Henk Norel, en þeir léku saman hjá CAI Zaragoza á Spáni.
Einnig eru þar tveir íslandsvinir sem leikið hafa hér á landi. KR-ingurinn Jason Dourisseau (2008-2009) er í hópnum sem og Sean Cunningham sem lék með Tindastól (2010-2011) og eru þeir báðir á leið til landsins að nýju.
Jason Dourisseau varð Íslandsmeistari, deildarmeistari og fyrirtækjabikarmeistari með KR-liðinu veturinn 2008-09 en þá léku einnig með liðinu þeir Jón Arnór Stefánsson og Jakob Sigurðarson.
Dourisseau var með 16,7 stig, 7,6 fráköst og 2,7 stoðsendingar að meðaltali með KR-liðinu í úrvalsdeildinni 2008-2009 tímabilið.
Sean Cunningham var með 15,5 stig, 5,0 fráköst og 4,9 stoðsendingar að meðaltali með Tindastólsliðinu í úrvalsdeildinni 2010-11 tímabilið.
Íslandsvinir á ferð með hollenska landsliðinu
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
